Um verkefnið

Skapandi viðbragð
sem eðliseinkenni lífs

„Við erum kraftmikið umhverfi hvers annars“, segir í heimspekilegum og líffræðilegum hugleiðingum Skúla Skúlasonar og Ole Martin Sandberg. Þar er „skapandi viðbragð“ skilgreint sem grunneiginleiki lífs: lífverur nema boð og skynja breytingar í umhverfi sínu og bregðast við á skapandi hátt — móta ný hegðunarmynstur sem styðja sjálfsviðhald og áframhaldandi þróun. Þau boð sem berast krefjast túlkunar, og túlkun kallar á ákvarðanatöku. Óvissa og kreppur af ýmsu tagi er þannig vendipunktur sem krefst sköpunar. En sköpunarferli lífsins eiga sér ekki aðeins stað í einstökum lífverum, heldur líka vistkerfum, stórum sem smáum, og fela í sér fjölbreytt tengsl. Líf og umhverfi eru þannig samfléttuð kerfi frekar en aðskildir hlutir. 

Samkvæmt slíkri ferlisheimspeki er listin líka ferli: virkt svar og túlkun sem opnar möguleika til aðgerða, dýpkar hugsun og eflir gerendavirkni.

skapandi Viðbrögð við umhverfisvá

Viðbragð / Creative Responses er norrænt samstarf fræðafólks, listafólks og aðgerðasinna sem beinir athygli að listrænni tjáningu — bókmenntum, myndlist, tónlist, kvikmyndum og öðrum skapandi athöfnum — sem hluta af lífsnauðsynlegu viðbragði við umhverfislegum umbreytingum á borð við loftslagsbreytingar og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika.

Í verkefninu fléttast saman fræðileg útgáfa, listasýningar, gestavinnustofur og málþing þar sem visthverf heimssýn er höfð að leiðarljósi og samvirkni, aðlögun, fjölbreytileiki og sameiginleg ábyrgð eru í forgrunni.

Bókin

Creative Responses to Environmental Crises and Aesthetics in Nordic Art and Literature (Lexington Books, 2025) veitir víðfeðma sýn á listræn viðbrögð við umhverfiskreppum í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi, á Íslandi og í Færeyjum. Kaflarnir fjalla um bókmenntir, bókaútgáfu, myndlist og kvikmyndir og endurspegla marglaga samspil hins staðbundna, svæðisbundna og hnattræna í list og aktívisma.

Ritið tengir fræði og myndlist með verkum eftir Angelu Snæfellsjökuls Rawlings, Þórdísi Aðalsteinsdóttur og Hildi Hákonardóttur.

Ritstjórar: Katarina Leppänen og Auður Aðalsteinsdóttir.

Sýningar

VIÐBRAGÐ / CREATIVE RESPONSES
Gallery SPECTA, Kaupmannahöfn: 16. maí – 21. júní 2025
Listasafnið á Akureyri: 27. nóvember 2025 – 8. febrúar 2026

Sýningarnar beina athygli að skapandi viðbrögðum sem grundvallareiginleika lífs, út frá visthverfu sjónarhorni. Verkin sem sýnd eru kanna umbreytingar og óskýr mörk hins innra og ytra, náttúru og menningar. Tengsl af ýmsu tagi eru í brennidepli, meðal annars samskipti sem spanna vítt róf, allt frá valdníðslu og  óréttlætis til umhyggju og ábyrgðarkenndar, sem og tilfinningaleg viðbrögð allt frá vistsorg og kvíða til vonar og sköpunargleði. 

Sýningarstjórar: Auður Aðalsteinsdóttir og Þórdís Aðalsteinsdóttir

samspil hins staðbundna og hnattræna

Verkefnið endurspeglar samspil hins svæðisbundna og hnattræna í umhverfislist og aktívisma. Hver viðburður og útgáfa fela í sér umbreytingar, nýja þátttakendur og aðlögun að staðbundnu umhverfi, í anda visthverfrar hugsunar. Ólíkur menningarlegur bakgrunnur þátttakenda kemur fram í verkum þeirra og framlagi, en megináherslan er á hinar margvíslegu tengingar milli þeirra og sameiginlegar hnattrænar áskoranir.

opið samstarf og samtal

Samfélagsleg þátttaka og ábyrgð: tengslanet fólks sem hefur áhuga á umhverfislist og -aktívisma gefur tækifæri til að sameina krafta og hafa meiri áhrif.

Opin málþing og viðburðir: listamönnum, fræðimönnum, aktívistum og almenningi er stefnt saman í opnum málþingum og öðrum óformlegum viðburðum og hvatt til samtals þeirra á milli.

Gestavinnustofur: gestalistamönnum er boðið að vinna að umhverfislist undir merkjum verkefnisins, í samstarfi og samtali við staðarfólk og nemendur í skólum í Mývatnssveit.

Aktívismi: verkefnið felur í sér rannsókn og þátttöku í skapandi umhverfisaðgerðum í víðum skilningi.

Ráðstefnur og fræðirit: umræður fara einnig fram á vettvangi fræðiráðstefna- og rita þar sem niðurstöður rannsókna eru kynntar.

Markmið

Samstaða og samtal í opnu og styðjandi umhverfi sem gefur næði til að íhuga umhverfisvandann og gefur kraft til skapandi aðgerða.

Flókið og mikilvægt hlutverk listar, bókmennta og annarra skapandi athafna er í brennidepli og til rannsóknar.

Nýjar hugmyndir, kenningar og tilraunir í umhverfislist og vistrýni eru kynntar og þróaðar.

Ný þverfagleg tengsl eru mynduð og styrkt.

Hvatt er til nýrra viðburða, listsköpunar og hugmynda.

Sú sannfæring er höfð að leiðarljósi að allar athafnir hafi áhrif.