Opnun sýningarinnar Viðbragð í Listasafninu á Akureyri

Skapandi viðbrögð við umhverfisógnum er þema listsýningar sem opnar 27. nóvember klukkan 20 í Ketilhúsi Listasafnsins á Akureyri. Fimmtán íslenskir og erlendir listamenn taka þátt, þar á meðal fiðluleikarinn og tónskáldið Laura Ortman sem á myndband á sýningunni og mun einnig spila fyrir gesti á opnuninni.

Laura skapar fjölbreytileg verk, meðal annars á hljómplötum, með lifandi flutningi og í kvikmyndatónlist. Hún hóf feril sinn sem myndlistarmaður áður en hún ákvað að einbeita sér að tónlist sem aðalmiðli sínum og lýsir listsköpun sinni sem „hljóðhöggmyndun“. Í myndbandsverkinu My Soul Remainer (2019) spilar Laura á rafmagnsfiðlu í landslagi suðvesturríkja Bandaríkjanna og fléttar saman klassískri tónlistarhefð og vísunum í tónlist frumbyggja, en hún er af White Mountain Apache ættbálkinum.

Aðrir listamenn sem taka þátt eru: a Snæfellsjökuls rawlings, Aurora Robson, Bolatta Silis-Høegh, Björg Eiríksdóttir, Camilla Thorup, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hildur Hákonardóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Kristinn Már Pálmason, Peter Holst Henckel, Sigga Björg Sigurðardóttir, Sigrún Hrólfsdóttir og Þórdís Aðalsteinsdóttir.

Jóna Hlíf sýnir textaverk og fundna hluti.
Jóna Hlíf: Tenging (2025). Ljósmyndatextaverk.

Viðbragð beinir athygli að skapandi viðbrögðum sem grundvallareiginleika lífs, og að mikilvægi listarinnar þegar tekist er á við breytta heimsmynd vegna loftslagsbreytinga og annarra umhverfisógna. Með visthverfa hugsun að leiðarljósi eru meginþemun samtengingar, flókin kerfi og fjölbreytileiki. Verk sýningarinnar kanna umbreytingar og óskýr mörk hins innra og ytra, náttúru og menningar. Tengsl af ýmsu tagi eru í brennidepli, meðal annars samskipti sem spanna vítt róf, allt frá valdníðslu og óréttlæti til umhyggju og ábyrgðarkenndar, sem og tilfinningaleg viðbrögð allt frá vistsorg og kvíða til vonar og sköpunargleði. 

Björg Eiríksdóttir: stilla úr vídeóverki.
Björg Eiríksdóttir: stilla úr vídeóverki.

Viðbragð er hluti af alþjóðlegu, þverfaglegu samvinnuverkefni sem varpar ljósi á mikilvægi skapandi athafna í heimi sem stendur frammi fyrir djúpstæðum umbreytingum og vinnur með þá hugmynd að listræn viðbrögð feli ekki aðeins í sér úrvinnslu umbreytinga í umhverfi okkar heldur séu lykilþáttur í að tryggja afkomu manneskjunnar. Lögð er áhersla á að skapa samstöðu á vettvangi þar sem ólíkar raddir mætast – fræðimenn, listamenn, rithöfundar og aðgerðasinnar – í rannsókn á eiginleikum vistlistar og tengslum manns og umhverfis. Hver viðburður felur í sér umbreytingar, nýja þátttakendur og aðlögun að staðbundnu umhverfi. Ólíkur menningarlegur bakgrunnur þátttakenda kemur fram í verkum þeirra en megináherslan er á margvíslegar tengingar milli þeirra og sameiginlegar hnattrænar áskoranir.

Sýningarstjórar eru Auður og Þórdís Aðalsteinsdætur.

Í tengslum við sýninguna heldur Rannsóknasetur HÍ í Þingeyjarsveit málþing í Gíg, Skútustöðum, þann 25. nóvember. Þar mun gestalistamaður setursins, Hrafnkell Sigurðsson, segja frá verkefni sem hann vann í tengslum við sýninguna í Listasafninu á Akureyri, í samstarfi við fólk í Þingeyjarsveit. Hrafnkell hefur unnið að gerð skúlptúrs úr fundnu efni á svæðinu, nánar tiltekið heyvinnuvélum. Að auki hafa nemendur í skúlptúrgerð í Þingeyjarskóla unnið eigin skúlptúra í samvinnu við Hrafnkel, og eiga þeir sitt pláss á sýningunni.

Fundið efni úr Mývatnssveit.

Deila á samfélagsmiðlum