Gestalistamaður í Gíg

Hrafnkell Sigurðsson, gestalistamaður í Gíg, vinnur útilistaverk úr fundnu efni í Mývatnssveit, í samvinnu við heimafólk og nemendur í skúlptúrgerð í Þingeyjarskóla, í nóvember 2025.

Hrafnkell hefur lengi lagt stund á umhverfislist, þar sem landslag og náttúra – einnig manngert umhverfi – verða hluti af sköpunarferlinu og móta listaverkið með listamanninum. Í Mývatnssveit hefur hann einkum áhuga á aflóga heyvinnslutækjum, sem, ásamt staðsetningu og umgjörð verksins, hafa sín áhrif á heildarniðurstöðuna. Samspil vélræns efniviðar og lífrænna forma er meginþema.

Hrafnkell hefur fengið efnivið og aðstoð hjá Kára Þorgrímssyni í Garði, Gunnari Brynjarssyni í Baldursheimi og Jóhanni og Sigurði Böðvarssonum og Friðjóni Jóhannssyni á Gautlöndum. Einnig hefur Þorlákur Páll Jónsson aðstoðað og tekið þátt í hönnunarferlinu.

Þann 21. nóvember var opið hús í vinnustofu Hrafnkels í skemmunni á Skútustöðum þar sem fólki gafst tækifæri til að sjá listamanninn að störfum og fá innsýn í gerð verksins. Skúlptúrar nemendanna voru þar einnig til sýnis, en fyrr um daginn höfðu þeir lagt lokahönd á þá með aðstoð Hrafnkels.

Skúlptúrar nemendanna eru stórkostleg listaverk

Ferlið er bæði myndað og tekið upp á vídeó af Stefaníu Eir Vignisdóttur og Gasa Kenny og þar mun sérstætt landslagið í Mývatnssveit leika stórt hlutverk.

Þann 25. nóvember tekur Hrafnkell þátt í viðburðinum „Spjallað um umhverfislist í setrinu“, sem haldinn er í Gíg. Meðal annarra þátttakenda eru Bianca Maria, Ólafur Þröstur Stefánsson, Ana Stanicevic og Katarina Leppanen. Viðburðurinn er styrktur af uppbyggingarsjóði SSNE og samfélagssjóði Landsvirkjunar.

Ljósmynd af óloknu verki Hrafnkels, undir titlinum Crescendo, verður hluti af sýningunni Viðbragð í Listasafninu á Akureyri, sem stendur frá 27. nóvember til 8. febrúar. Þar verða einnig til sýningar skúlptúrar nemenda úr Þingeyjarskóla sem þeir unnu í samvinnu við Hrafnkel.

Deila á samfélagsmiðlum