Listamenn

angela Snæfellsjökuls rawlings

angela Snæfellsjökuls rawlings fæst oft við þau tengsl og ferli sem eru að verki í náttúrunni, list og vísindum. Angela hefur undanfarið vakið athygli á lagalegri hlið umhverfismála, sérstaklega réttindum náttúrunnar, og tók meðal annars þátt í herferð árið 2024 til að tilnefna Snæfellsjökul sem forseta Íslands. Tillaga angelu um breytingu á litanöfnum þannig að þau endurspegli betur veruleika loftslagsbreytinga benir athyglinni að hlut tungumálsins í samskiptum okkar um og við vistkerfin sem við búum í og felur í sér von um breytingar í þeim efnum.

Motion to Change Colour Names (2025)

Aurora Robson

Aurora Robson gerir verk úr plastúrgangi og hefur á ferli sínum þróað ýmsar aðferðir í þeim efnum. Margir af plastskúlptúrum hennar líkja eftir lífrænum formum plantna, sveppa og dýra: formum sem við tengjum oft við fegurð náttúrunnar og gefa okkur tækifæri til að endurskoða andstæður eins og náttúrulegt/manngert sem og stigveldið sem við tökum sem sjálfsagðan hlut í samskiptum okkar við hluti og efni. Plast gegnumsýrir nú allt jarðlíf, en að mati Auroru hentar þetta langlífa efni betur sem efniviður í listaverk en í einnota hversdagshluti eins og skeiðar eða tannstöngla.

Fern

Björg Eiríksdóttir

Björg Eiríksdóttir notar lagskiptingu, mynstur, nálægð og tíma, bæði í málverkum og myndböndum og leitast hún við að tjá þá marglaga upplifun að vera líkamleg vera í tengslum við umhverfið. Björg hugleiðir á hvern hátt fóstur gæti upplifað tengsl og veru sína í heiminum með öðrum lífverum, fljótandi um í legvatni, órjúfanlegur hluti umhverfisins, áður en það fæðist.

Kyrra úr myndbandsverkinu Skyn

Bolatta Silis-Høegh

Bolatta Silis-Høegh tengir hið persónulega við hið samfélagslega og pólitíska, sem og hið meir-en-mannlega. Verk hennar vísa oft til kynslóðabundinna áfalla og rauði þráðurinn er hringrás (sjálfs)þekkingar, (sjálfs)skilnings og (sjálfs)umhyggju. Kræklingaformið birtist fyrst þegar trommusöngkonan Nuka Alice söng fyrir hana. Bolatta tengir spírallaga form kræklingsins við hið kvenlega og skelina við meir-en-mannlegt móðurlíf sem megi hugsa sér að skríða inn í þegar huggunar er þörf. Efnið í textílverkinu Kaaviiarneq eru rúmföt, viskastykki, borðdúkar og handklæði frá formæðrum Bolöttu, sem urðu afgangs frá annarri uppsetningu. Endurvinnslan felur í sér virðingu við arfleifð kynslóðanna og efnisheiminn almennt.

Kaaviiarneq (2025)

Camilla Thorup

Camilla Thorup gerir keramikskúlptúra af náttúrumótífum með sterkum vistfræðilegum og pólitískum undirtónum er hún beinir athyglinni að hlutverki mannkynsins í hringrás náttúrunnar og þeim vistsporum sem við skiljum eftir okkur: „Sem lífverur erum við hluti af náttúrulegri hringrás lífs, dauða og endurnýjunar – allt frá súrefninu sem við öndum að okkur til matarins sem við neytum. Samt sem áður veldur úrgangurinn frá óhóflegri neyslu okkar því að náttúruleg endurnýjun raskast.”

Furry baby (2025)

Hekla Dögg Jónsdóttir

Hekla Dögg Jónsdóttir beinir oft sjónum okkar að landamærunum sem við drögum upp: milli hins innra og ytra, eða ósýnilegu línunni þar sem tvö höf mætast. Samræða og samvinna eru mikilvægir þættir í list hennar, sem og áhersla á sköpunarferlið, og verk hennar hverfast gjarnan í kringum sýningarrýmið sjálft.

Sea Rise (2025)

Hildur Hákonardóttir

Hildur Hákonardóttir hefur í gegnum tíðina tvinnað saman list og aktívisma, kvenréttindabaráttu og náttúruvernd. Í bókinni Rauður þráður segir Sigrún Inga Hrólfsdóttir að í viðhorfi Hildar felist „tónn safnarans, mannveru sem nýtir sér það sem umhverfið leggur til“ og þar með „andóf við heimsmynd samtímans þar sem maðurinn reynir að stjórna náttúrunni“. List Hildar sé „samofin, í orðsins fyllstu merkingu, starfi hennar á sviði jafnréttisbaráttu kvenna, menntunar, safna og ræktunar“ og dæmi um það hvernig „þekking á einu sviði getur orðið að verkfæri í öðru samhengi, en til þess þarf að beita skapandi hugsun“.

Hildur Hákonardóttir á upptökustað.

Hrafnkell Sigurðsson | Keli

Hrafnkell Sigurðsson hefur lengi lagt stund á umhverfislist, þar sem landslag og náttúra – einnig manngert umhverfi – verða hluti af sköpunarferlinu og móta listaverkið með listamanninum. Í Mývatnssveit hefur hann einkum áhuga á aflóga landbúnaðartækjum sem, ásamt staðsetningu og umgjörð verksins, hafa sín áhrif á heildarniðurstöðuna. Samspil vélræns efniviðar og lífrænna forma er meginþema.

Recondestruction

Jóna Hlíf Halldórsdóttir

Jóna Hlíf Halldórsdóttir teflir gjarnan texta og náttúrumyndum saman á óvæntan hátt. Verk hennar skapa ekki aðeins tengingar þar á milli heldur lýsa stundum gjánni sem getur skapast í tilraunum okkar til að lýsa náttúru, nefna hana og skilgreina. Í verkum Jónu Hlífar verða textar oft að efnislegum hlut þar sem efniviðurinn skiptir máli; stafir standa uppréttir eins og skúlptúrar og eru ýmist úr viðkvæmum pappír, veðruðum kopar, áli. Öðrum textum er miðlað með speglun, lýsingu og skuggum. Með því að gefa bókstöfum þetta sjálfstæða líf verða sjálfar byggingareiningar textanna í brennidepli, ekki bara boðskapur þeirra, og tvinnast saman við önnur endurtekin þemu í verkum Jónu Hlífar, til dæmis samspil hins efnislega og hins óáþreifanlega, hins viðkvæma og hins sterka, þess sem er hverfult og þess sem endist.

Jóna Hlíf: Hlakka til að gleymast (2025)

Kristinn Már Pálmason

Kristinn Már Pálmason vinnur með tákn og form og notar til þess skapalón sem hann notar gjarnan aftur og aftur þótt alltaf bætist ný við. Þau eru svo mikill hluti af sköpunarferlinu að honum finnst þau hafa öðlast sjálfstætt líf og geta staðið sem listaverk í sjálfu sér. Mótífin koma víða að, til dæmis úr miðaldateikningum, en einnig notar hann fundna hluti, í samsetningum sem hann segir að megi kalla sjónræna endurvinnslu. Úr verkum Kristins Más má lesa viðurkenningu á hlutkrafti: innbyggðum lífsþrótti efnis, sem getur verið óháður mannlegri skynjun, túlkun og notkun.

Inverted Mausoleum, detail (2025)

Laura Ortman

Laura Ortman er fiðluleikari, tónskáld og ástríðufullur talsmaður samstarfs af ýmsum toga. Hún skapar fjölbreytileg verk, meðal annars á hljómplötum, með lifandi flutningi og í kvikmyndatónlist. Laura hefur sterka tengingu við myndlist, þar sem hún hóf feril sinn með gerð málverka og innsetninga áður en hún ákvað að einbeita sér að tónlist sem aðalmiðli sínum. Hún lýsir listsköpun sinni sem „hljóðhöggmyndun“.

Stilla úr vídeóinu My Soul Remainer (2019)

Peter Holst Henckel

Peter Holst Henckel beitir lúmskum leiðum til að nota list til samfélagsgagnrýni, í þessu tilfelli með notuðum, hversdagslegum, fundnum hlutum. Verk hans sýna hvernig endurvinnsla og sjálfbærni, eins og að gera litlar breytingar á hlutum sem þegar finnast, og skapa þannig eitthvað nýtt, felur ekki í sér skort, heldur skapar þvert á móti nýja merkingu.

The Ostrich Effect (2025)

Sigga Björg Sigurðardóttir

Sigga Björg Sigurðardóttir hefur lengi skapað verk þar sem samruni, umbreytingar og hreyfing eru aðalþemu. Blekteikningar hennar minna stundum í senn á dýr, plöntur og fólk. Þessar súrrealískar verur, sem stundum flæða hver inn í aðra eða leka yfir jaðar myndarinnar eru í senn húmorískar og óhugnanlegar. Þær eru leið listamannsins til að tjá öfgakenndar tilfinningar, en þær vekja einnig athygli á óljósum mörkum milli hins mennska og ekki-mennska. Á undanförnum árum hefur Sigga Björg bætt við nýrri vídd í myndheim sinn: abstrakt og að því er virðist lífrænum formum sem hún teflir gjarnan fram í bland við fígúratífu verkin.

Bird in a Tree (2024)

Sigrún Inga Hrólfsdóttir

Sigrún Inga Hrólfsdóttir skynjar huglæg áhrif náttúrulegra efna eins og endorfíns, oxýtósíns og estrógens sem liti. Sjónræn birtingarmynd ósýnilegra krafta eins og átaka, löngunar, ástar og vellíðunar afhjúpar flókinn vef tilfinninga, stjórnmála, vísinda og valdatengsla. Málverk hennar sækja í abstrakt impressjónisma, dulspeki og rúmfræði og bera með sér sterka táknfræði og sálfræðilegar og andlegar vísanir. Skúlptúrar á borð við leg heklað úr leiðandi koparþræði hnykkja á femínískri áherslu á að lífið byggist á samvinnu og tengslum.

Oxytocyn (2025)

Þórdís Adalsteinsdóttir

Þórdís Adalsteinsdóttir er þekkt fyrir sérstætt og oft á tíðum súrrealískt myndmál, þar sem hún teflir saman dulkóðaðri samfélagsgagnrýni og persónulegum táknum. Sambönd eru áberandi þema og oft í samhengi hins meir-en-mannlega. Eðli þeirra spannar allt frá óhugnaði til umhyggju og fáránleiki þeirra er oft undirstrikaður með viðsnúningi hefðbundinna hlutverka, undarlegum hlutföllum og óvenjulegum samsetningum. Ófyrirsjáanleiki er eitt einkenna flókinna vistfræðilegra og félagslegra kerfa og einnig lykilþáttur í málverkum Þórdísar.

Rabbit Monk Exhausted (2024)