Við erum kraftmikið umhverfi hvers annars og skapandi viðbragð er grunneiginleiki alls lífs. Lífverur skynja breytingar í umhverfi sínu og bregðast við á skapandi hátt – móta ný hegðunarmynstur sem styðja sjálfsviðhald og áframhaldandi þróun. Þessi sköpunarferli lífsins eiga sér ekki aðeins stað í einstökum lífverum, heldur líka vistkerfum og samfélögum, og fela í sér fjölbreytt tengsl. – Ole Martin Sandberg heimspekingur og Skúli Skúlason líffræðingur

Samsýningin Viðbragð beinir athygli að skapandi viðbrögðum sem grundvallareiginleika lífs, og að mikilvægi listarinnar þegar tekist er á við breytta heimsmynd vegna loftslagsbreytinga og annarra umhverfisógna. Með visthverfa hugsun að leiðarljósi eru meginþemun samtengingar, flókin kerfi og fjölbreytileiki. Verk sýningarinnar kanna umbreytingar og óskýr mörk hins innra og ytra, náttúru og menningar. Tengsl af ýmsu tagi eru í brennidepli, meðal annars samskipti sem spanna vítt róf, allt frá valdníðslu og óréttlæti til umhyggju og ábyrgðarkenndar, sem og tilfinningaleg viðbrögð allt frá vistsorg og kvíða til vonar og sköpunargleði.

Viðbragð er hluti af alþjóðlegu, þverfaglegu samvinnuverkefni sem varpar ljósi á mikilvægi skapandi athafna í heimi sem stendur frammi fyrir djúpstæðum umbreytingum og vinnur með þá hugmynd að listræn viðbrögð feli ekki aðeins í sér úrvinnslu umbreytinga í umhverfi okkar heldur séu lykilþáttur í að tryggja afkomu manneskjunnar. Lögð er áhersla á að skapa samstöðu á vettvangi þar sem ólíkar raddir mætast – fræðimenn, listamenn, rithöfundar og aðgerðasinnar – í rannsókn á eiginleikum vistlistar og tengslum manns og umhverfis. Hver viðburður felur í sér umbreytingar, nýja þátttakendur og aðlögun að staðbundnu umhverfi. Ólíkur menningarlegur bakgrunnur þátttakenda kemur fram í verkum þeirra en megináherslan er á margvíslegar tengingar milli þeirra og sameiginlegar hnattrænar áskoranir.

Listamenn sýningarinnar eru: a Snæfellsjökuls rawlings, Aurora Robson, Bolatta Silis-Høegh, Björg Eiríksdóttir, Camilla Thorup, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hildur Hákonardóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Kristinn Már Pálmason, Laura Ortman, Peter Holst Henckel, Sigga Björg Sigurðardóttir, Sigrún Hrólfsdóttir og Þórdís Aðalsteinsdóttir.

Sýningarstjórar: Auður Aðalsteinsdóttir og Þórdís Aðalsteinsdóttir.